Episodios

  • Aftur af stað: Ég hef einu sinni grátið...
    Nov 11 2022

    Kynning á næstu seríu Leiðarinnar okkar allra. Fer í loftið um helgina...

    Ása Laufey og Bolli Pétur hafa flutt sig um hljóðstofu og settust á dögunum með Þóri Guðmundssyni í turninn Víðförla, á horni Vonarstrætis og Lækjargötu. Leiðin okkar allra, á leið í loftið á ný!

    Más Menos
    9 m
  • Verði ljós, elskan: Soffía Bjarnadóttir - jólaþáttur
    Dec 21 2021

    Til hátíðarbrigða fá Ása og Bolli skáldið Soffíu Bjarnadóttur til sín til að grufla í ljósinu, sannleikanum og fegurðinni með henni. Þau ræða skrif og skáldskap, skáldskap sem veruleika og reynslu, uppsprettu innblástursins - aðferð skrifa sem verkfæri heilunnar og lífsins göngu frá ljósi til ljóss, í gegnum skynvillur skóga. Tilefnið er vissulega nýútkomin ljóðabók Soffíu, Verði ljós, elskan - sem bókaforlagið Angústúra gefur út. Soffía er verkefnastjóri bókmennta hjá Bókasöfnum Reykjavíkur, skáld og kennari í ritlist, með meistaragráður í bæði ritlist og bókmenntafræði. Hún á tvö börn, Emil og Líneik Þulu og býr í Reykjavík.

    Þátturinn kemur út á vetrarsólhvörfum og er jólaþáttur Leiðarinnar okkar allra. Hann er auðvitað tileinkaður öllum þeim sem geta ekki verið með sínum nánustu á jólum vegna faraldursins.

    Arnaldur, Ása Laufey og Bolli Pétur óska ykkur gleðilegra jóla og friðar í hjarta yfir hátíðarnar.

    Más Menos
    56 m
  • Á leiðinni heiman og heim: Kynning
    Dec 19 2021

    Hlaðvarpsþátturinn „Leiðin okkar allra“ tekur á því að mæta fólki á ferð - og huga að. Það er horft aftur um lífsleiðina og velt fyrir sér vægi hinnar andlegu vegferðar í því ferli að halda jafnvæginu. Eins og segir í ljóði Einars Georgs Einarssonar, þá geta örlögin valdið því að einn daginn verður maðurinn að halda af stað. Við getum aldrei vitað hvað mun mæta okkur á morgun, svo það er kannski bara ágætt að velta aðeins vöngum yfir lífsgildum sínum áður en lagt er af stað.

    Í þessum mannlegu þáttum Kirkjuvarpsins, í umsjón Arnaldar Mána, velta Bolli Pétur og Ása Laufey því fyrir sér ásamt viðmælendum sínum hvað það kann að vera sem fær manninn til að velta vöngum yfir tilgangi lífsins leiðina á enda. Það eru sem áður ljós og skuggar, brekkur og sléttur, einn Guð og allir - eða enginn; það er fjallað um trú og trúleysi, um heilbrigðar og óheilbrigðar guðsmyndir, rýnt í sjálfið og sjálfsvitundina, hið ómeðvitaða og meðvitaða. Umfjöllunarefnið er ekki síst reynsla mannsins í stóra samhenginu, súrir og sætir sigrar og dauðadjúpar sorgir. Einhvernveginn kemur allt saman á tilviljunarkenndan en jafnframt með merkingarbærum hætti í því sem við köllum sammannlegt. Eða það segir Bolli allaveganna.

    Við tæklum ekki hið huglæga aðeins á hlutlægan hátt, það er gömul saga og ný; það þarf að mæta raunum sálar með hjálp í sjálfum andanum. Hvernig gerir fólk það, hver eru bjargráðin? Hér er spurt um það hvað hafi stutt við viðmælendur Leiðarinnar okkar allraen þeir koma úr ólíkum áttum, með ólíkan bakgrunn, ólíkar væntingar og þrár, ólíka menntun og reynslu. Leiðin markast alltaf af lífsreynslu okkar, undirstöðunum og þránni - en ekki síst af því hvernig leiðir við nýtum okkur til að vinna úr því sem á reynir. Ása er mikil áhugamanneskja um þær leiðir.

    Fróðlegt hlaðvarp um hina andlegu vegferð þar sem áföll, vegtyllur, skóleysi og skringilegar tilviljanir bæði leiða okkur í villur og koma okkur á sporið; svo við rötum aftur leiðina heim.

    Ása Laufey Sæmundsdóttir og Bolli Pétur Bollason eru sálgætar og prestar sem starfa í söfnuðum á vegum Þjóðkirkjunnar, en fá í þessum þáttum til sín fólk úr ýmsum áttum sem á þó merkilega margt sameiginlegt. Umsjónarmaður og hljóðsnyrtir er Arnaldur Máni Finnsson.

    Þátturinn er tekinn upp í Skrúðhúsinu, Katrínartúni 4 og gefinn út af Kirkjuvarpinu, hlaðvarpsveitu Þjóðkirkjunnar.

    Upphafsstef og söngur: Þorsteinn Einarsson.

    Ljóðið „Leiðin okkar allra“ er eftir Einar Georg Einarsson

    Ljósmynd í logoi þáttarins á Völundur Jónsson

    Þakkir til þeirra þriggja - og fararblessun þér til handa á leiðinni!

    Más Menos
    14 m
  • Við erum saman í samfélaginu: Svavar Knútur Kristinsson
    Dec 17 2021

    Söngvaskáldið Svavar Knútur er mörgum kunnur af list sinni, en þessi hrifnæmi ljúfi Vestfirðingur hefur löngum veitt andanum greiðan aðgang að sér. Hann ræðir við Bolla og Ásu um sköpunargáfuna og kraftinn, heimspekilegar vangaveltur og hressandi sögur af sorgum og sigrum, og þó aðallega sorgum. Auðvitað. 45 ár af lífi - heillandi viðhorf til lífsins og reynslunnar.

    Más Menos
    1 h y 2 m
  • Að þekkja skugga sinn og drauma: Haukur Ingi Jónasson
    Dec 17 2021

    Haukur Ingi Jónasson er lektor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og formaður stjórnar MPM-náms skólans. Hann hefur komið að margþættum rannsóknum á sviði stjórnunarfræða og er meðhöfundur sex bóka á íslensku (JPV) og fimm bóka á ensku (Routledge/Taylor and Francis).

    Haukur lauk doktorsnámi sínu við Union Theological Seminary í New York en þar las hann sálarfræði, geðsjúkdóma- og geðlæknisfræði, sálgreiningu, analýtíska sálfræði í sögu og samtíð, og hagnýta og kennimannlega guðfræði með sérstakri áherslu á beitingu hennar í klínískri vinnu, við kennslu, í atvinnulífi og í nútíma samfélagi. Samhliða doktorsnámi stundaði Haukur klínísk nám við Harlem Family Institute, Health Care Chaplaincy og Lenox Hill-sjúkrahúsið í New York.

    Í doktorsritgerð sinni In a Land of a Living God, The Healing Imagination and the Icelandic Heritage, setur Haukur fram kenningu sem útskýrir virkni ímyndunaraflsins í mannshuganum. Ímyndunaraflið er skilgreint sem samsetning (e. synthesis) sálræn efnis í nýjar hugmyndir þannig að til verða táknmyndir sem standa fyrir fjarverandi hluti, geðhrif, líkamlega virkni, líkamlegt ástand, minningar, hneigðir, hvatir. Afurðir þessa eru myndir, tákn, órar, draumar, hugmyndir, hugsanir og/eða hugtök. Þá heldur hann því fram að ímyndunaraflið sé frábrugðið órum að því leiti að í stað þess að vera á skjön við veruleikann þá nýtist heilbrigt ímyndunarafl til virkrar aðlögunar að veruleikanum til dæmis í sköpun og nýsköpun ýmiskonar.

    Más Menos
    1 h y 7 m
  • Í nærgætnu skjóli: Rósa Björg Brynjarsdóttir
    Dec 17 2021

    Rósa Björg Brynjarsdóttir umsjónarkona Skjólsins, opins húss fyrir konur í Grensáskirkju, er menntaður kennari og mannauðsstjóri, með diploma í sálgæslu. Örlögin höguðu því svo til að hún var aðeins 27 ára gömul þegar MS-sjúkdómurinn gerði vart við sig hjá henni en frá því í upphafi þessa árs hefur hún starfað að uppbyggingu og mótun Skjólsins, ásamt fleirum. Rósa Björg, móðir með tvö börn og fjölskyldu, ræðir við Ásu Laufey og Bolla Pétur um þetta leiksvið lífsins sem stöðugt krefst nýrra sviðsmynda.

    „Konur sem eiga í engin hús að venda eru eins ólíkar og þær eru margar,“ segir Rósa Björg, „en flestar ef ekki allar eiga það sameiginlegt að eiga áfallasögu og er ég þakklát að hafa eignast traust þeirra til að heyra þeirra sögur og fá að fylgja þeim.“

    Más Menos
    1 h y 3 m
  • Björt mey og missir: Ólafur Teitur Guðnason
    Dec 17 2021

    Ólafur Teitur Guðnason er höfundur bókarinnar Meyjarmissir, en hefur starfað sem blaðamaður og ráðgjafi, síðast sem aðstoðarmaður ráðherra. Ólafur hefur ritstýrt bókum og er einnig höfundar bókanna Fjölmiðlar 2004Fjölmiðlar 2005, Fjölmiðlar 2006 og Fjölmiðlar 2007 þar sem hann leitasðist við að greina fréttaumfjöllun íslenskra fjölmiðla með gagnrýnu hugarfari.

    Í þættinum ræða Ása Laufey og Bolli við hann um lífið og dauðann, Engilbjörtu Auðunsdóttur, meyjarmissi, félagsskapinn Ljónshjarta og hans eigin vegferð við úrvinnslu þess áfalls að missa lífsförunaut sinn langt fyrir aldur fram.

    Más Menos
    1 h y 5 m
  • Þroskuð trú og tilgangur: Svana Helen Björnsdóttir
    Dec 16 2021

    Í þætti dagsins birtir hinn þekkti frumkvöðull Svana Helen Björnsdóttir framkvæmdastjóri og rafmagnsverkfræðingur, hlið á sjálfri sér sem ekki hefur borið mikið á. Hún segir frá trúarlegri mótun í æsku og hvernig mikilvæg reynsla á menntaskólaárunum markaði meðal annars þau spor í hennar starfi að vilja sinna öldrunarmálum með tækninýjungum í þágu heilbrigðisgeirans.

    Svana Helen hefur bæði djúpa reynslu og mikla sögu að segja af þeirri trú sem nærir hana og hvernig samtal hennar við þann Guð, sem er hafin yfir nöfn og merkimiða, og samfylgd með kirkjunni og Kristi hefur veitt henni styrk í fjölbreyttum verkefnum lífsins.

    Frásaga af þroskaðri trú og tilgangi lífsins. Njótið

    Más Menos
    58 m