Episodes

  • Hinar ýmsu hliðar gervigreindar: Dr Yngvi Björnsson prófessor við HR
    Jul 24 2024

    Kristján Örn tekur aftur á móti dr. Yngva Björnssyni prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík aðra vikuna í röð. Í síðustu viku ræddu þeir um gervigreind og skák og heldur umræðan áfram nú þar sem Yngvi upplýsir frekar um hinar ýmsu hliðar gervigreindar. Yngvi segir frá þeim gervigreindarrannsóknum sem hann hefur fengist við í gegnum árin þar sem hann hefur notað skák og aðra svipaða borðleiki sem viðfangsefni. Hann nefnir m.a. tölvukerfi sem læra af reynslu, útskýranlega gervigreind (e. explainable AI) og alhliða leikjagreind. Yngvi varð ásamt Hilmari Finnssyni, meistaranema hans við Háskólann í Reykjavík, heimstmeistari í keppni alhliða leikjaforrita sem haldin var í Vancouver í Kanada árið 2007. Þeir vörðu heimsmeistaratitilinn í gervigreind ásamt öðrum meistaranema, Gylfa Þór Guðmundssyni, þegar þeir urðu heimsmeistarar í gervigreind á stærstu gervigreindarráðstefnu heims sem haldin var í Chicago árið 2010 en þá lögðu þeir öðru sinni að velli Háskólann í Kaliforníu (UCLA) í úrslitum. Þeir ræddu um nýja löggjöf Evrópusambandsins um gervigreind sem tekur gildi 1. ágúst næstkomandi, lagaleg og siðferðileg álitamál, persónuverndarlög og höfundarréttarmál, hvort gervigreind hefði tilfinningar og hvað kerfi eins og risamállíkön ChatGPT, Copilot og Gemini geta og geta ekki gert.

    Show more Show less
    56 mins
  • Gervigreind og skák: Dr. Yngvi Björnsson, prófessor
    Jul 17 2024

    Gestur Kristjáns Arnar í þessum þætti er Dr. Yngvi Björnsson, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann var einn fyrsti doktorsmenntaði Íslendingurinn sem lagði áherslu á gervigreind en hann hefur lengi stundað kennslu og rannsóknir á því sviði. Hann er jafnframt áhugamaður um skák og hefur notað tölvuskák sem viðfangsefni í mörgum af sínum rannsóknarverkefnum.

    Í þættinum ræða þeir félagar um áhuga Yngva á tölvunarfræði, gervigreind og tölvuskák en skákin hefur einmitt átt stóran þátt í þeim áhuga. Yngvi segir að skákin eigi sér langa og merkilega sögu sem mikilvægt umfangsefni í gervigreindarrannsóknum. Hann segir að í ár séu liðin 50 ár frá því að fyrsta heimsmeistaramótið í tölvuskák fór fram og framan af hafi verið mikill áhugi fyrir þessum mótum sem hafi þó farið dvínandi seinni ár. Seinasta opinbera heimsmeistaramótið í tölvuskák verður haldið síðar á þessu ári. Árið 2005 var mótið haldið á Íslandi og var Yngvi einn af skipuleggjendum mótsins. Árið 1996 tók Yngvi þátt í heimsmeistaramótinu ásamt samnemanda sínum, vísindamanninum Andreas Junghanns, en mótið fór fram í Jakarta höfuðborg Indónesíu. Skákforrit þeirra hét The Turk, í höfuðið á skákvél sem byggð var árið 1770. Tyrkinn (e. The Turk) var ekki raunveruleg vél, heldur vélræn blekking. Maður var inni í vélinni sem vann við stjórntækin. Með hæfileikaríkan skákmann falinn inni í vélinni vann Tyrkinn flestar skákirnar. Það lék og vann viðureignir gegn mörgum þar á meðal Napoleon Bonaparte og Benjamin Franklin.

    Yngvi og Kristján ræddu um Deep Blue ofurtölvuna, AlpahaZero ofurforritið, Stockfish sem er sterkasta skákforriti í heimi og talið vera með styrkleika upp á 3.634 skákstig - þó í raun sé erfitt að meta það nema gegn öðrum skákforritum. Margt annað fróðlegt og skemmtilegt bar á góma og var ákveðið að Yngvi kæmi aftur í heimsókn næsta miðvikudag þar sem þeir félagarnir munu halda áfram að ræða um skák og gervigreind.

    Show more Show less
    54 mins
  • Hæfileikamennirnir Sveinbjörn Jónsson og Gauti Páll Jónsson
    Jul 10 2024

    Gestir þáttarins í dag eru þeir Sveinbjörn Jónsson, Súgfirðingur, áhugaskákmaður og fyrrverandi trillukarl og Gauti Páll Jónsson, fyrrverandi formaður Taflfélags Reykjavíkur, sagnfræðingur og ritstjóri tímaritsins Skákar.

    Sveinbjörn sagði frá skákstarfinu á Súgandafirði og á Vestfjörðum hér á árum áður en Sveinbjörn sá meðal annars um skólaskák á Vestfjörðum um árbil. Hann sagði frá sterkum skákmönnum á Vestfjörðum og minntist á að Jóhann Þórir hefið haldið eitt af sínu frægu helgarskákmótum á Suðureyri við Súgandafjörð. Sveinbjörn er hagyrðingur góður og hefur samið margar vísur, lög og texta og fór hann með tvær skáktengdar vísur í þættinum. Spiluð voru tvö lög eftir Sveinbjörn. Lagið Driftwood sem fjallar um eilífðina, hafið og rekavið en hann tileinkaði lagið Hrafni Jökulssyni skákfrömuði sem jarðsettur var í kistu úr Vestfirskum rekaviði og lagið Ættfræði óttans sem er andsvar Sveinbjörns við setningu Einars Ben: "Ótti er virðingar faðir og móðir" en Sveinbjörn hefur miklar mætur á skáldinu Einari Ben.

    Gauti Páll sagði frá starfinu í Taflfélagi Reykjavíkur og mótahaldi félagsins í sumar en félagið er eitt af fáum skákfélögum sem heldur starfinu gangandi yfir sumarmánuðina. Hann rifjaði upp að þeir Sveinbjörn hafi telft saman í Gallerý Skák fyrir u.þ.b. 10 árum og að síðasa skák þeirra, sem var kappskák, hafi endað með jafntefli. Að launum fékk hann breitt bros frá hógværum Sveinbirni.

    Þeir félagar ræddu svo um heimsmeistaramót 50 ára og eldri sem fram fer í Kraká í Póllandi en síðasta umferðin verður tefld á morgun. Íslenska sveitin, skipuð "fjórmenningaklíkunni" frægu ásamt stórmeistaranum Þresti Þórhallssyni, leiddi mótið fyrir 7. umferð sem tefld var í gær gegn feykisterkri sveit Bandaríkjamanna. Íslenska sveitin var ein í efsta sætinu fyrir umferðina en tapaði viðureigninni (1-3) og á því veika von á að hremma gullið nema bandaríska sveitin misstígi sig í síðustu tveimur umferðunum. Íslenska sveitin á þó enn góða möguleika á að enda á verðlaunapalli.

    Tal barst að unga og efnilega skákfólkinu okkar og hinum argentíska Faustino Oro sem í síðasta mánuði varð yngsti alþjóðlegi skákmeistari skáksögunnar og sló þar með met hins bandaríska Abhimanyu Mishra um einn mánuð og fjóra daga. Faustiono er aðeins 10 ára gamall, fæddur 14. október 2013 en nýverið vann hann bestu skákmenn heims, heimsmeistarana Magnús Carlsen og Hikaru Nakamura, í hraðskák (1. og 3. mínútna skákir) á skákþjóni vefsíðunnar Chess.com.

    Show more Show less
    1 hr and 1 min
  • Skák á Grænlandi: Róbert Lagerman og Veronika Steinunn Magnúsdóttir
    Jul 3 2024

    Grænlandsfararnir Róbert Lagerman FIDE meistari og alþjóðlegur skákdómari og Veronika Steinunn Magnúsdóttir blaðamaður og laganemi eru gestir Kristjáns Arnar í þessum þætti. Þau ræða um útbreiðslu skákíþróttarinnar á Grænlandi sem skákfélagið Hrókurinn undir forystu Hrafns Jökulssonar heitins kom á í byrjun aldarinnar. Róbert fer til Grænlands núna í júlí og verður það 74 ferðin hans til Grænlands til að "breiða út fagnaðarerindið" eins og skákmenn svara gjarnan þegar þeir eru spurðir út í tilganginn með þessu öllu saman.

    Skákfélagið Hrókurinn hefur síðan árið 2003 unnið markvisst að útbreiðslu skákíþróttarinnar á Grænlandi. Áður var skák þar nánast óþekkt. Hrókurinn hefur farið í fjölmargar ferðir til Grænlands, heimsótt mörg þorp og haldið námskeið, fjöltefli og skákmót. Útbreiðsla skákíþróttarinnar hefur verið mikil og hefur félaginu alls staðar verið vel tekið. Má fullyrða að fjölmörg börn og fullorðnir tefli nú á Grænlandi fyrir tilstuðlan Hróksins.

    Róbert segir að Hrafn hafi sagt sér að markmiðið með öllum þessum ferðum væri að skapa gleðistundir fyrir börnin en ekki kílówattsstundir eins og Landsvirkjun. Hann segir að Hrókur­inn og Kalak, sem er vinafélag Grænlands og Íslands, hafi fyrst og fremst að leiðarljósi að auka sam­vinnu Íslend­inga og Græn­lend­inga á sem flest­um sviðum, sér­stak­lega þeim sem lúta að hags­mun­um barna. Grannþjóðirn­ar í norðri geti margt hvor af ann­arri lært, þegar vinátta og virðing séu í fyr­ir­rúmi.

    Róbert talar um störf Hrafns og Stefáns Her­berts­sonar á Grænlandi. Hrafn hafi leitt skák­land­nám Hróks­ins á Græn­landi frá upp­hafi auk þess að hafa verið virk­ur í starfi Kalak. Stefán sé fv. formaður Kalak og upp­hafsmaður hins ár­lega sund­krakka­verk­efn­is, en þá er 11 ára börn­um frá aust­ur­strönd­inni boðið til Íslands til að læra sund og kynn­ast ís­lensku sam­fé­lagi.

    Margt annað athyglisvert ber á góma hjá þeim Róberti og Veroniku í þættinum, m.a. grænlenskur matur, ísbirnir, sleðahundar, sauðnaut, menning, samgöngur, margvísleg félagsleg vandamál á Austur-Grænlandi og það, að Grænlenska skáksambandið hafi sótt um inngöngu í FIDE en umsóknin verður tekin fyrir á þingi Alþjóðaskáksambandsins sem haldið verður samhliða Ólympíuskákmótinu í Búdapest í Ungverjalandi dagana 10.- 23. september nk.

    Show more Show less
    57 mins
  • Ný lög um skák frá Alþingi: Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands
    Jun 26 2024

    Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands er viðmælandi Kristjáns Arnar í þessum þætti og ræddu þeir að mestu um eftirfarandi: Alþingi Íslendinga samþykkti ný lög um skák síðastliðinn laugardag eða á síðasta starfsdegi þingsins fyrir sumarfrí. Lögin fela í sér þá breytingu að núverandi lög um launasjóð stórmeistara í skák, nr. 58/1990 og lög um Skákskóla Íslands, nr. 76/1990 falla úr gildi frá og með 1. febrúar 2025 þegar nýju heildarlögin um skák taka gildi. Ákvæði til bráðabirgða öðlast þó þegar gildi. Þar kemur fram að störf stórmeistara í skák séu lögð niður frá 31. janúar 2025 og að um réttindi og skyldur starfsmanna [stórmeistara], þ.m.t. biðlaunaréttur, fari samkvæmt lögum um réttindin og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Gert er ráð fyrir að líklegt sé að hópur sem nú fær laun stórmeistara muni uppfylla öll skilyrði til að fá úthlutun úr nýjum afrekssjóði í skák. Til að tryggja meðalhóf er lagt til að þessi hópur, nú sjö manns, njóti forgangs til styrkja úr sjóðnum í fyrstu úthlutun árið 2025 en eftir þann tíma verða umsóknir þeirra metnar á sama grundvelli og annarra úr sjóðnum. Með nýju lögunum er skilgreint að framlög ríkisins til skákmála renni annars vegar til afrekssjóðs í skák og hins vegar til skákhreyfingarinnar í gegnum æðsta aðila hennar, Skáksamband Íslands, meðal annars til fræðslu um skák. Jafnframt er horft til þess möguleika að styrkja efnilegt skákfólk, sem stefnir að alþjóðlegum árangri, en hingað til hafi eingöngu þeir sem hlotið hafa nafnbótina stórmeistari uppfyllt skilyrði til að fá greiðslur úr ríkissjóði. Styrkjum verður að jafnaði úthlutað einu sinni á ári og verða veittir í þrjá til tólf mánuði í senn og þá til skilgreindra verkefna sem taki mið af væntum árangri umsækjanda það árið. Til að bæta stöðu og auka möguleika kvenna í skák er heimilt að setja mismunandi skilyrði styrkveitinga fyrir kynin.

    Show more Show less
    53 mins
  • Hve þung er þín krúna: Sigurbjörn J. Björnsson og Björn Ívar Karlsson FIDE meistarar
    Jun 19 2024

    Sigurbjörn J. Björnsson og Björn Ívar Karlsson eru mættir Við skákborðið til Kristjáns Arnar að þessu sinni. Meginefni þáttarins er umfjöllun um nýja bók eftir Sigurbjörn sem er að koma út í komandi viku. Hve þung er þín krúna er söguleg skáldsaga sem segir frá heimsmeistaraeinvíginu í skák á Íslandi á nýstárlegan hátt. Hún greinir frá því hvernig íslensku skipuleggjendurnir tókust á við margvísleg vandamál sem komu upp við skipulagningu einvígisins og það hvernig þeir Spasskí og Fischer tókust á við álagið og sundrungina sem kom upp i herbúðum beggja aðila, sumarið 1972 þegar skák varð miðdepill heimsfréttanna.

    Höfundur bókarinnar Sigurbjörn J. Björnsson er margreyndur skákmaður, fyrrverandi skákmeistari Reykjavíkur og núverandi Íslandsmeistari skákfélaga með skákdeild Fjölnis.

    Í þættinum koma þeir félagar inn á ákvörðun aðalfundar Skáksambands Íslands um að halda áfram útgáfu tímaritsins Skákar á prentformi en stjórn sambandsins hafði fyrr á árinu ákveðið að hætta útgáfunni , Fjórmenningaklíkuna sem heldur á heimsmeistaramót 50 ára og eldri í Kraká í Póllandi í byrjun júlí, Hans Moke Niemann sem aftur hefur rofið 2700 alþjóðlega skákstigamúrinn, Madrid Chess Festival þar sem ýmis leiðindi voru fyrirferðamikil, ásakanir um svindl o.fl. Einng kom fram að Jeanne Cairns Sinquefield, meðstofnandi Saint Louis Chess Club, tilkynnti við upphaf Cairns Cup mótsins í síðustu viku að fimm fyrstu bandarísku konurnar sem næðu stórmeistaratitli fyrir 4. júlí 2029 yrðu verðlaunaðar sérstökum "Cairns Chess Queens" verðlaunum að upphæð 100.000 dollurum eða um 14. milljónum íslenskra króna. Alþjóðaskáksambandið hefur ákveðið að heimsmeistaramótið í at- og hraðskák skuli fara fram í New York í Bandaríkjunum á milli jóla og nýárs og

    Show more Show less
    57 mins
  • Skákmeistararnir Magnús Pálmi Örnólfsson og Rúnar Sigurpálsson
    Jun 12 2024

    Gestir skákþáttarins að þessu sinni eru skákmeistararnir Magnús Pálmi Örnólfsson, hagfræðingur MBA og Rúnar Sigurpálsson, FIDE meistari og framkvæmdastjóri orkufyrirtækisins Fallorku á Akureyri. Magnús Pálmi var í stúdíóinu með Kristjáni Erni en Rúnar kom svo inn í síðari hluta þáttarins með símasambandi frá Akureyri. Í fyrri hlutanum sagði Magnús frá áætlun sinni um að setja á stofn skáksetur á Hóli í Bolungarvík, sem hann nýlega festi kaup á, þar sem skákmönnum gæfist kostur á að dveljast, nema og stúdera skáklistina í góðu næði við góðar aðstæður. Einnig ræddi hann áhuga sinn á að koma upp fyrsta flokks skákaðstöðu á höfuðborgarsvæðinu. Þar yrði hægt að halda vönduð skákmót þar sem öll bestu tæki og áhöld yrðu til staðar, bæði til taflmennsku og útsendinga. Rúnar Sigurpálsson sagði frá skáklífinu á Akureyri, rifjaði aðspurður af Magnúsi upp fjölda þeirra skákmeistaratitla sem hann hefur unnið til í gegnum árin og sögðu þeir félagarnir sögur frá menntaskólaárum sínum á Akureyri og þegar þeir tefldu í landsliðsflokki í Vestmannaeyjum árið 1994. Margt annað bar á góma sem hlusta má á í þættinum.

    Show more Show less
    59 mins
  • Björn Ívar Karlsson FIDE meistari og skákkennari og Helgi Árnason formaður Fjölnis
    Jun 5 2024

    Skákkennarinn og FIDE meistarinn Björn Ívar Karlsson var gestur þáttarins að þessu sinni. Eins og oft áður var umræðuefnið fjölbreytilegt en þeir Björn Ívar og Kristján Örn veltu fyrir sér slökum árangri heimsmeistarans Ding Liren í Norway Chess skákmótinu sem lýkur í vikunni. Björn efaðist um að við fengjum að sjá einvígi á milli Ding og áskorandans Gukesh í lok árs eins og stefnt er að, Ding Liren væri einfaldlega ekki búinn að jafna sig eftir erfið veikindi undanfarið ár. Björn talaði um EM ungmenna 8-18 ára sem fer fram í Prag 21. ágúst til 1. september en þar væri um að ræða metþátttöku frá Íslandi. Komið var inn á keppnisferðir Breiðabliks til Deltalift Open í Halmstad, þjálfunaraðferðir og undirbúning fyrir skákir, þróun og breytingar á ungum skákmönnum, Wessman Cup sem CAD-bræður héldu fyrir stuttu og hversu öflugir "gömlu mennirnir" Jóhann Hjartarson og Helgi Ólafsson væru en Helgi stóð uppi sem sigurvegari. Þá var rætt um Áskorendaflokk sem nú stendur yfir í húsakynnum TR og væntanlega bók Sigurbjörns Björnssonar, Hve þung er þín krúna, um einvígið 1972. Í fundargerð Skáksambands Íslands frá 26. apríl sl. segir að Helgi Ólafsson hafi lýst því yfir að hann ætli að hætta sem skólastjóri Skákskólans í haus eftir 30 ára starf. Kristján spurði Björn Ívar hvort hann hygðist gefa kost á sér sem næsti skólastjóri og sagðist Björn hafa áhuga á að taka við því starfi. Í fundargerðinni kemur einng fram að stjórn SÍ hafi ákveðið á fundi sínum að óska við Dómstól SÍ að Héðinn Steingrímsson stórmeistari fengi þriggja ára bann frá Skákþingi Íslands auk eins árs banns frá öðrum mótum á vegum SÍ. Kristján Örn spilaði viðtal í lok þáttarins sem hann tók við Helga Árnason formann skákdeildar Fjölnis og fyrrverandi skólastjóra Rimaskóla vegna málsins en Héðinn er öflugur liðsmaður Íslandsmeistara Fjölnis í skák.

    Show more Show less
    1 hr and 1 min